GÖNGUFERÐIR - ANNA OG INGI

Tví-smelltu á myndina til að stækka hana.

19.12.05

Raðganga um Reykjaveginn
Raðganga um Reykjaveginn

Raðgöngur Útivistar hafa verið vinsælar og margir setja sér það markmið að taka þátt í sem flestum áföngum þeirra. Í ár býður Útivist upp á tvær raðgöngur. Aðalgangan er kærkomin endurnýjun kynna af Reykjaveginum og er lýst annars staðar í blaðinu. Þann 29. janúar hefst áhugaverð þriggja áfanga ganga fyrir Rosmhvalanes, nesið nyrst á Reykjanesskaganum, en rosmhvalur er annað nafn á rostungi. Gengið verður frá Helguvík um Leiruna, Garðinn og út á Garðskaga og svo með nesinu vestanverðu um Sandgerði, Hvalsnes, Básenda og í Hafnir eða samtals um 35 km leið. Á þessu svæði ber margt fyrir augu, víða eru minjar útræðis og landbúnaðar; fornar stórskipahafnir og verslunarstaðir; vitar og varðaðar alfaraleiðir, og síðast en ekki síst fjölbreytt náttúra og mannlíf.1. Áfangi
29. janúar


Rosmhvalanesraðganga, 1. áfangi. Helguvík - Garðskagi.

Létt ganga með ströndinni frá Helguvík um Leiru og Garð að gamla Garðskagavitanum. Í Leiru er 18 holu golfvöllur Golfklúbbs Suðurnesja. Ekki verður farið í golf að þessu sinni en þess í stað gengið á fjörukambinum neðan vallarins. Skammt undan landi er hólmi sem golfvöllurinn tekur nafn sitt af, Hólmsvöllur. Í fjörunni ber margt fyrir augu og þar er að mörgu að hyggja. Leiðin liggur um Rafnkelsstaðaberg sem er innan við byggðina í Garði en síðan í gegnum byggðarkjarnann. Um aldir hefur verið mikil sjósókn frá Garðinum og oft fjölmenni á staðnum. Sóknarkirkjan að Útskálum var reist 1861-63. Á Garðskaga er næstelsti viti landsins, reistur 1897, og lýsti hann sjófarendum leiðina fyrir Garðskaga sem er fjölfarnasta siglingaleið við Ísland. Hann þjónaði sjófarendum til 1944 er nýr viti var tekinn í notkun. Gamli vitinn er nú friðaður. Vegalengd um 10 km. Hækkun óveruleg. Göngutími 3-4 klst.2. Áfangi
12. febrúar

Rosmhvalanesraðganga, 2. áfangi. Garðskagi - Stafnes.

Fjörunni fylgt frá Garðskagavita að Stafnesi. Á þessari leið er margt að skoða. Árið 1868 var kannaður mjög merkur kumlateigur að Hafurbjarnarstöðum sem talinn er frá 10. öld. Upp af Kolbeinsstöðum sést enn móta fyrir Skagagarðinum mikla. Kirkjuból var fyrrum höfðingjasetur og vettvangur sögulegra atburða sem verða rifjaðir upp. Þá verður farið í gegnum Sandgerði og síðar framhjá Hvalsnesi en þar hefur verið kirkja frá fornu fari og nú stendur þar ein fegursta steinkirkja á Íslandi. Þekktastur presta sem þar hafa setið er vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar dóttur hans sem talið er að Hallgrímur hafi sjálfur höggvið. Vegalengd 14 km. Hækkun engin. Göngutími 5-6 klst.3. Áfangi
26. febrúar

Rosmhvalanesraðganga, 3. áfangi. Stafnes - Hafnir.

Gengið frá Stafnesi að Höfnum. Á Stafnesi var mikil útgerð á 17. og 18. öld og þar var miðstöð konungsútgerðarinnar á Suðurnesjum. Róið var af kappi frá Stafnesi fram um miðja 20. öld. Á Básendum var útræði og verslunarstaður. Þar var ein af höfnum einokunarverslunarinnar. Básenda tók af í mjög miklu sjávarflóði árið 1799. Í Þórshöfn var verslunarstaður um tíma og sjást þess enn merki. Síðar tók Sandgerði við því hlutverki. Við Þórshöfn strandaði stærsta seglskip sinnar samtíðar, Jamestown árið 1881. Eftir að hafa hugað að sögu þessara staða verður gengið fyrir Ósabotna og til Hafna. Vegalengd 12 km. Hækkun engin. Göngutími 5-6 klst.

4. Áfangi
5. mars


Reykjavegurinn, 1. áfangi. Reykjanes - Stóra-Sandvík.

Upphaf þessarar raðgöngu er við Bæjarfell en uppi á því stendur Reykjanesviti. Í vestri blasa við Valahnúkur og Eldey úti í hafi. Í suðri Reykjanestá en dyngjurnar Skálafell og Háleyjabunga í austri. Norðar í hrauninu eru Vatnsfell og Sýrfell. Á Valahnúk var reistur fyrsti viti á Íslandi árið 1878 en hann eyðilagðist í jarðskjálfta og undirstaða hans er nú horfin þar sem sjórinn brýtur stöðugt úr hnúknum. Austan Bæjarfells og norðan Skálafells er mikið jarðhitasvæði með gufu- og leirhverum og Gunnuhver er sennilega þeirra þekktastur enda þjóðsagan um Gunnu sem var komið fyrir í hvernum vel þekkt. Eftir að hafa skoðað Valabjargagjá og jafnvel gengið út á Reykjanestá verður ströndinni fylgt frá Valahnúk að Önglabrjótsnefi. Þá er komið í Stampahraun og farið yfir gossprunguna sem Stamparnir eru á og hraunið tekur nafn sitt af. Talið er að Stampahraun yngra hafi runnið á 13. öld. Frá Kistubergi verður ströndinni fylgt norður í Stóru-Sandvík sem er allstór vík með sandfjöru og skeljum. Austur af víkinni er tjörn sem vert er að gefa gaum. Síðastliðið haust var hluti kvikmyndar Clint Eastwood, "The Flags of our Fathers", tekinn í Stóru-Sandvík. Vegalengd 8-10 km. Hækkun engin. Göngutími 4-5 klst.


5. Áfangi
19. mars


Reykjavegurinn, 2. áfangi. Stóra-Sandvík – Þorbjarnarfell.

Í austurátt frá Stóru-Sandvík er lægð í hraunið sem leiðin liggur um. Þarna þarf að fara yfir bílveginn og stefnan tekin á Haug sem er lítið eldvarp sunnan Haugsvörðugjár. Þar er komið inn á Prestastíg (Hafnaleið) sem er gömul leið á milli Húsatótta í Grindavík og Kalmanstjarnar. Þessi leið er greinileg og vel vörðuð. Henni verður fylgt sunnan Sandfellshæðar með jaðri Eldvarpahrauns en síðan inn í hraunið hjá Rauðhól og norður með Eldvarpasprungunni að austan. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar stundum bökuð brauð. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu við Eldvörp sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með greinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Aðeins um það bil 1 km austur/suðaustur af þessum helli eru húsarústir í Sundvörðuhrauni sem vert er að leggja leið sína að. Þetta eru 10 tóftir flestar vestan undir hraunbrún en tvær þeirra eru uppi á henni. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Frá Eldvörpum liggur leiðin austur yfir Sundvörðuhraun. Fljótlega verður farið yfir Árnastíg sem er vörðuð leið á milli Húsatótta í Grindavík og Njarðvíkurfitja. Þegar komið er nokkuð austur í hraunið verður farið inn á Skipsstíg sem liggur í átt til Grindavíkur. Þessari dagleið lýkur síðan við Þorbjarnarfell. Vegalengd 13-14 km. Hækkun óveruleg. Göngutími 5 klst.
6. Áfangi
2. apríl


Reykjavegurinn, 3. áfangi. Þorbjarnarfell - Skála-Mælifell.

Frá Þorbjarnarfelli liggur leiðin upp á Hagafell. Gengið austur með misgengi sem klýfur fellið en undir því eru Gálgaklettar. Af fellinu opnast útsýni í austur. Svartsengisfell er nú á vinstri hönd og Sundhnúkur beint framundan. Sunnan hans er Vatnsheiðin og austur af henni blasir Fiskidalsfjall við. Haldið yfir á Vatnsheiðina sunnan Sundhnúks en efst á heiðinni er gígur sem vert er að skoða áður en haldið er austur af henni niður í Beinavörðuhraun. Stikaða leiðin liggur á milli hrauns og hlíðar austur í krikann vestan undir Hrafnshlíð. Hér er ákaflega fallegt og vel þess virði að staldra við í hraungjótu og fá sér nesti. Fljótlega lækkar hlíðin og þá verður farið upp á hana og inn í Borgarhraun með stefnu á Borgarfjall sem er syðsti hluti Fagradalsfjalls. Fyrir austan Borgarhraun breytir landið um svip, við taka blásnar hlíðar og melar með fjöllin Slögu og Skála-Mælifell á hægri hönd en við Skála-Mælifell lýkur þessum áfanga. Vegalengd 12-13 km. Hækkun 100 m. Göngutími 4-5 klst.
7. Áfangi
17. apríl

Reykjavegurinn, 4. áfangi. Skála-Mælifell – Djúpavatn.

Austan undir Skála-Mælifelli er misgengi sem Méltunnuklif heitir. Þessu misgengi verður fylgt milli hrauns og hlíðar norður að Höfða og Sandfelli. Við Sandfell liggur stikaða leiðin austur yfir Skolahraun að Núpshlíðarhálsi. Eftir að hafa farið um hraun er nú komið á gróið land og hér eru rústir af seli sem Hraunssel hét og kennt við Hraun í Grindavík. Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Frá Hraunsseli liggur leiðin norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Smátt og smátt fjarlægist Sandfell í blámóðuna að baki, Hraunssels-Vatnsfell og fleiri fell þokast hjá á vinstri hönd en Driffell, Keilir og Oddafell skýrast þá norðar dregur. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli en það er allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum. Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Þegar kemur norður fyrir Selsvelli taka við hæðardrög með gígaröð sem m.a. Afstapahraun er runnið úr. Opnast nú lægð í hálsinn sem kallast Sog. Í Sogunum er ummyndun eftir jarðhita og litadýrð mikil. Á brúnunum vestan við þetta skarð liggur leiðin, þvert yfir Núpshlíðarháls og niður á Lækjarvelli norðan Djúpavatns. Á leiðinni yfir hálsinn verður farið framhjá Spákonuvatni sem er í gömlum gíg. Vegalengd 13-14 km. Hækkun 250 m. Göngutími 5-6 klst.

8. Áfangi
30. apríl


Reykjavegurinn, 5. áfangi. Djúpavatn – Kaldársel.

Frá Lækjarvöllum liggur leiðin norður Móhálsadal á milli Fíflavallafjalls og Hrútafells. Farið í gegnum Hrúthólma sem er óbrynnishólmi í hrauninu austur af Mávahlíðum. Þar er komið á gamla leið sem lá á milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar og nefnist Hrauntungustígur. Nokkru norðan Hrúthólma lá önnur leið út af henni niður að Straumi og nefnist Straumsselsstígur. Frá Hrúthólma verður farið yfir að Hrútagjá og þaðan norður að Sandfelli. Hrútagjá er sigdalur og sprunga sem liggur í vesturjaðri mikillar eldstöðvar, Hrútagjárdyngju, í norðanverðum Móhálsadal. Þarna er ákaflega skemmtilegt umhverfi og ástæða til að kanna vel. Við Sandfell er komið á aðra forna leið á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur sem heitir Stórhöfðastígur. Reykjavegurinn liggur á milli Sandfells og Fjallsins eina að Hraunhóli við Krýsuvíkurveg nokkru norðan Vatnsskarðs. Farið yfir hann og gengið austur að Undirhlíðum og þar er komið á enn eina forna leið á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, Undirhlíðaleið. Héðan er leiðin greið og auðrötuð eftir gömlum götum með Undirhlíðum niður í Kaldársel. Vegalengd 15 km. Lækkun 100 m. Göngutími 5-6 klst.

15.12.05

GönguvínssmökkunEr þetta svona sterkt
að maður fær í hálsinn?Á bara að horfa á þettaÞú meinar þaðHvað er svona
broslegt við vínið?Llllaaangur eftir keimur
Er þetta full
þroskað?
Smá gáfnapróf á eftirMá drekka núna?
Hva ætrar hann að
hella á borðið?


Á leið í vaskinn!Hvað er maðurinn
að gera við mjöðinn

Hað er maðurinn að segja
ætlar hann ekki að hella
í glösin?mmmmþað ilmar vel


Ætlar þú að klára allt Bjarni

12.12.05

Þrastarskógur 11. des. 2005

 
cool hit counter